Ferðaþjónustan er tækifæri landsbyggðarinnar

Ferðaþjónustan er tækifæri landsbyggðarinnarÍslensk ferðaþjónusta á framtíðina fyrir sér í upphafi nýrrar aldar. Að baki er áratuga uppbygging á innviðum íslensks samfélags sem ferðamenn nýta í ríkum mæli ásamt landsmönnum. Ferðamenn, innlendir sem erlendir nýta samgöngukerfi, vegi, fjarskiptakerfi, verslun og ýmsa aðra þjónustu. Ferðaþjónusta er líklega stærsta tækifæri landsbyggðar til þróunar og heilsársbúsetu í framtíðinni. Fátt skiptir ferðaþjónustuna meira máli en framboð flugsæta til og frá Íslandi. Þar fer Icelandair fremst í flokki og þjónar landinu beggja vegna atlantshafsins. Hlutur og forysta Icelandair í þróun ferðaþjónustu Íslands er vanmetin. Svo vel hefur Icelandair gengið að stækka kökuna fyrir íslenska ferðaþjónustu að önnur flugfélög hafa séð sér leik á borði og einnig hafið flug til og frá Íslandi. Iceland Express, og fleiri fljúga til landsins frá ýmsum Evrópuborgum, og sú samkeppni hefur einnig skapað nýja markaði. Góð samkeppnisstaðaMikilvægi íslenskrar ferðaþjónustu í þjóðarbúskapnum er tiltölulega óumdeilt. Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum eru áætlaðar um 50 milljarðar króna í ár og fargjaldatekjur flugfélaganna eru áætlaðar um 20 milljarðar kr í ár. Hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu er hærra hér en á hinum norðurlöndunum, eða yfir 6%, næstir okkur eru Danir, þó ekki nema hálfdrættingar, með 3% hlutfall. Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi er að mestu leyti betra en í nágrannalöndunum hvað varðar skatta á fyrirtæki, einstaklinga og virðisaukaskatt. Á móti vegur að vísu að gengissveiflur, vextir og áfengisgjald er óhagstæðara. Samkeppnisstaða Íslands er samt með því besta sem völ er á í heiminum og að mati World Economic Forum, lendir Ísland í 4. sæti, Noregur kemur næst norðurlanda í 11. sæti. Stefnumótun stjórnvalda í þessari atvinnugrein hefur miðað að því að gera almennan rekstrarramma hagfelldan og að fjölga ferðamönnum meira utan háannatímans og stuðla að dreifingu þeirra um landið. Þetta hefur tekist að mestu. Nema á vetrum, þar vantar að koma ferðamönnum út á land. Gert er ráð fyrir um 500 þúsund erlendum ferðamönnum í ár. Flestir koma frá Bretlandi, yfir 70.000 manns, þá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Danmörku. Fyrir landsbyggðina skiptir máli að markaðssetja sig á rétta markhópa og þjóðerni. Bretar og Bandaríkjamenn er t.d. mun líklegri til að koma til Íslands yfir veturinn heldur en t.d Frakkar og Þjóðverjar.  Vöxum áframFramtíðin er björt í ferðaþjónustu og öll ytri skilyrði fyrir áframhaldandi vexti. Í Evrópu fjölgar fólki í eldri aldurshópum, samtímis fjölgar þeim sem fara á eftirlaun áður en formlegum eftirlaunaaldri er náð. Þessir hópar njóta betri heilsu og eru fjársterkari en áður. Samtímis vex mikilvægi ungra ferðamanna sem hafa sífellt meira fé til umráða. Nýir fjarlægari markaðir eru líka vaxandi og eru mikil tækifæri fólgin í aukningu frá Asíu, einkum Kína sem þegar er í góðum vexti.  Veisla í farangrinum Ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur byggst að miklu leyti upp af eigin afli þeirra aðila, sem starfa í greininni. Hefur greinin reitt sig á fórnir, dugnað og áhættuvilja einstaklinga. Það hefur á hinn bóginn þýtt það, að greinin hefur þróast að miklu leyti í takt við markaðinn en ekki samkvæmt miðstýrðri stefnumótun.  Það er ekki þar með sagt að ekki eigi að standa við bakið á frumkvöðlum. Það á auðvitað að gera það. En ef vel á að takast til, þá verður ekki hjá því komist að nýta sköpunarkraft og hugmyndaauðgi einstaklinga og fyrirtækja. Nú er á döfinni skipulagsbreyting í yfirstjórn ferðamála með flutningi yfir í Iðnaraðráðuneyti  Við það skapast ný tækifæri, með nýrri hugsun og ferskri sýn. Brýnt er að nýta þau skil vel, þannig að hægt sé að hugsa nýjar hugsanir og jafnframt halda til haga því sem áunnist hefur. Mikið starf fer fram víða um land í náttúrutengdri ferðaþjónustu. Ótrúleg hugmyndaauðgi og útsjónarsemi margra smáfyrirtækja, hefur gert það að verkum að tekist hefur að skapa eftirspurn eftir vetrarferðum, sem á eftir að margfaldast á næstu árum. Þetta er gríðarlega mikilvægt, svo hægt sé að auka tekjur af greininni, í sátt við náttúruna sjálfa og auka rekstrarlegt hagræði. Menningartengd ferðaþjónusta – sóknarfæriSóknarfærin eru mörg í menningartengdri ferðaþjónustu. Þar liggja mörkin eingöngu við endimörk ímyndunaraflsins. Á Íslandi eru listir og menning með þvílíkum blóma að hróður okkar berst um alla heimsbyggðina og gildir það jafnt um tónlist, myndlist, kvikmyndir, leiklist og bókmenntir. Tónlistarhátíð á við Airwaves og kvikmyndahátíð á við stuttmyndahátíðina, er framtak sem hafa mikið að segja. En við byggjum líka á fornum fjársjóði, þar sem fornmenning okkar er. Hún stendur fornmenningu Grikkja síst að baki og er einn af meginþáttum evrópskrar menningarsögu. Saxo hinn danski, segir í formála að danasögu sem hann skrifaði 1170, að ekki hefði verið hægt að skrifa þá sögu án íslenskra heimilda. Íslenska er kennd við tugi háskóla í öllum heimsálfum, og víðar en önnur norðurlandamál. Og nú eru einkaaðilar með sinni óbilandi framtakssemi að vísa veginn: Sögusafnið í Perlunni, Landnámssetur í Borgarnesi, Eiríksstaðir í Dölum, Á Njáluslóðum á Hvolsvelli og fleiri söfn tengd menningu hafa risið, sum sem síðar hafa fengið stuðning opinberra aðila, svo sem Vesturfarasetur á Hofsósi, Galdrasafn á Ströndum, Landnámssafn í Reykjavík. Meirihluti þessara safna hefur orðið til á síðastliðnum fáum árum.  Í byggingu víkingasafn á Suðurnesjum, þar sem stjórnvöld styðja dyggilega við bakið á einstaklingum, sem hafa lagt sitt ævistarf í að varðveita menningarsöguleg verðmæti. Ljóst er að þar verður viðkomustaður tugþúsunda ferðamanna á komandi árum. Uppbyggingarstarf það sem opinberir aðilar koma að, þarf að mótast af langtímahugsun. Hvað varðar menningartengda ferðaþjónustu, þarf að efla ímynd Íslands sem menningarlands. Við höfum ekki Akrópólis né Delfí, né aðrar rústir, en nútímatækni býður upp á nýja möguleika til að skapa upplifanir, einsog íslenskir frumkvöðlar hafa sýnt fram á. Við þurfum að nota tæknina til að nýta okkar stórkostlega fornsagnaheim.  Tónlistar- og ráðstefnuhús við höfnina er að rísa, ein metnaðarfyllsta  framkvæmd íslandsögunnar og kallar á nýjar hugmyndir um nýtingu. Það á eftir að verða eitt af kennileitum höfuðborgarinnar og frjór vettvangur listastarfsemi, sem mun laða að ferðamenn í, ef rétt er á málum haldið.  Hvernig gerum við?Það er nauðsynlegt að leiða saman til nýrra landvinninga; heimamenn í öllum landshlutum og opinbera aðila svo sem Nýsköpunarmiðstöð, Byggðastofnun og Ferðamálastofu með það að markmiði að hefja til nýrrar sóknar, þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þar ber að taka mið af sögulegri arfleið hvers svæðis um sig og laða fram afl og hugmyndaauðgi heimamanna og þeirra fyrirtækja sem sterkast standa í ferðaþjónustu.  Til að nýta það tækifæri sem felst í því að einkaaðilar og opinberir aðilar eru að reisa við Reykjavikurhöfn tónlistar- og ráðstefnuhús, þarf eigi síðar en strax að hefja markaðssókn á öllum okkar helstu mörkuðum til að tryggja vöxt í ráðstefnu- og menningar ferðamennsku. Stjórnvöld gegna þar leiðtogahlutverki með því að tryggja fjármagn á móti einkaaðilum í markaðssetningu og styrkingu á ímynd Íslands á þessum hluta markaðarins. Áfram þarf að tryggja gott samstarf ýmissa aðila sem koma saman að ýmis konar landkynningu, svo sem Ferðamálastofu, utanríkisþjónustunnar og íslenskra fyrirtækja á útflutningsmörkuðum, en til að það verði árangursríkt þarf fjármagn til markaðssóknar á erlendum mörkuðum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband