27.2.2008 | 20:51
Íslensk ferðaþjónusta er samkeppnishæf
Íslensk ferðaþjónusta er samkeppnishæf-markaðssetning erlendis og nýsköpun á landsbyggðinni Nokkuð hefur að undanförnu verið fjallað um samkeppnishæfni atvinnugreina hérlendis. Ferðaþjónusta á Íslandi hefur átt við svipaðan vanda að etja og aðrar útflutningsgreinar hvað varðar hátt vaxtastig og sveiflur í gengi íslensku krónunnar.En ýmislegt í umhverfinu er betra á Íslandi en í nágrannalöndunum. Í fyrra stóð Ferðamálastofa að gerð skýrslu um samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu í samanburði við hin norðurlöndin. Ýmislegt fróðlegt kemur fram í skýrslunni og er meginniðurstaðan sú að íslensk ferðaþjónusta er samkeppnishæfust af þeim fjórum löndum sem samanburðurinn nær til, en bornir eru saman samkeppnisþættir milli Íslands, Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs. Þannig eru skattar lægstir á Íslandi og á það við um skatta á hagnað fyrirtækja, arðgreiðslur til eigenda, skatta á starfsmenn og virðisaukaskatt á mat, gistingu, hópbílaakstur og þjónustu ferðaskrifstofa. Virðisaukaskattur á t.d. gistingu og veitingar var lækkaður í 7% á Íslandi á árinu og hafa sænsk stjórnvöld tilkynnt að næsta ár verði vsk lækkaður á gistingu niður í 6%. Sé mun víðtækari mælikvarði notaður við samanburð en að ofan greinir, eins og World Economic Forum notar, þá stendur Ísland einnig framar hinum norðurlöndunum. Lendir í 4. sæti, Noregur næst í 11. sæti og Svíþjóð og Danmörk í 17. og 23. sæti. World Economic Forum ber saman 124 lönd og miklu fleiri breytur. Ýmislegt annað vekur athygli í samanburði á ferðaþjónustu landanna, t.d. að hlutfall erlenda markaðarins af gistinóttum er langmest á Íslandi, eða um 70%, en 50% í Danmörku sem kemur næst. Þetta sýnir ennfremur mikilvægi öflugrar markaðssetningar erlendis. Þá vekur athygli að sé borið saman hlutfall gistinátta eftir landsvæðum við hlutfall af íbúafjölda svæðis, kemur Höfuðborgarsvæðið verst út með um 40% gistinátta en 64% íbúa. Þessu er öfugt farið á öllum hinum norðurlöndunum. Þetta sýnir að þó að höfuðborgin sé gríðarlega mikilvæg ferðaþjónustunni þá er landsbyggðin aðal aðdráttarafl erlendra sem innlendra ferðamanna. Þess vegna ber að setja mikinn kraft í nýsköpun og vöruþróun á landsbyggðinni til lengri tíma.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.